Til hamingju með Hófaskarðsleið sveitungar mínir Það er mikill áfangi í sögu samgangna í sveitinni minni þegar nýr vegur er kominn yfir fjallgarðinn. Ýmsar hugleiðingar vakna um samgöngur fyrri tíðar þegar nú er rennt á innan við þremur klukkustundum frá Akureyri í Þistilfjörð.
Hópurinn sem var saman í Garði veturinn 1962
Arnþrúður Margrét á Brúarlandi, Rósbjörg Halldóra í Krossavík, Kristín á Gunnarsstöðum, Þuríður í Borgum, Iðunn í Garði Jón Níels í Krossavík, Níels á Hermundarfelli, Bjarni í Garði, Viðar í Garði, Svandís á Svalbarðsseli, Bjarney Súsanna á Kúðá, Kristjana Vilborg í Kollavík, Þórarinn í Laxárdal og Indriði á Völlum.
Við sem munum tímana tvenna, munum mokstur og basl við að komast milli byggðarlaga eða innansveitar. Sama var hvort aurbleyta að vorlagi hindraði för eða fannfergi og ótíð á vetrum. Mín fyrsta minning um ferðalag innan sveitar var ferð til kirkju þar sem pabbi setti boddí eða farþegaskýli á pallinn. (stóran kassa úr krossviði með trébekkjum og gluggum ) á gamla ford Þ-42 og fólkið af bæjunum klöngraðist upp á pallinn og lét sér í léttu rúmi liggja þó fordinn væri enn hastari en nokkur hestur á grófum malarveginum. Inni í fordinum sátum við amma mín og nafna í Hvammi og María, tengdamóðir Hönnu. Mamma og fjöldi fólks var á pallinum í boddíinu. Konurnar voru að sjálfsögðu flestar í upphlut eða peysufötum. Að minnsta kosti einu sinni var stoppað og tínt grjót í pitt á veginum. Eitt sinn fórum við undirrituð, Sigrún úti í bæ og Dúa (Arnþrúður) á Brúarlandi á vorpróf inn í Garð með Þórarni í Holti sem var prófdómari og séra Ingimari sem var að fara að spyrja fermingarbörnin. Þetta ferðalag tók nærri tvær klukkustundir, þar sem nokkrum sinnum þurfti að stoppa og tína grjót í vilpur sem höfðu komið við ræsi og þar sem ekki var búið að bera ofan í vatnsskurði þvert yfir veginn. Ég var bílveik af hristingi og dösuð þegar í prófin kom. Þá var skólinn í Garði hjá Margréti og Baldri, þeim yndislegu hjónum. Þar var ég alla mína barnaskólagöngu sem mér reiknast til að hafi verið níu mánuðir samtals.
Fermingarsystkinin sem fermdust 1963
Jón Níels í Krossavík, Kristín á Gunnarsstöðum og Bjarni í Garði.
Á myndina vantar Sesselíu Þóroddsdóttur frá Hermundarfelli.
Fyrsta ferðin mín yfir Hálsa var í janúar 1963. Þá hafði kvenfélagið saumanámskeið á Gunnarsstöðum og konurnar komu með efni og saumavélar og Ólína saumakona kom að sunnan og kenndi að sníða og sauma. Þá var þessi ólseiga, samheldni og kraftur í kvenfélaginu og gleði eins og er þar alla tíð. Við Sigrún og Dúa fengum að vera með og saumuðum okkur níðþröngar stretch buxur með teygju undir iljarnar. Nema hvað, að Ólínu þurfti að komast til Raufarhafnar á næsta námskeið. Geiri í Holti var sjálfkjörinn til að hlaupa undir bagga með kvenfélaginu og tók flutninginn að sér. Við stöllur sem allar vorum heima þenna vetur drifum okkur með, enda yfirleitt kvenfólki boðið með þegar Geiri hafði pláss. Það var búið að ryðja upp fyrir veginum og jafna ruðninginn að mestu, en ekki búið að opna veginn. Við fórum þetta allt með hægðinni og komumst til Raufarhafnar á rúmum tveimur tímum. Síðan var matarboð fyrir okkur í Höskuldarnesi hjá Arnbjörgu móðursystur minni og Árna bónda, steik og sætsúpa. Ég gleymi ekki heimferðinni í stjörnubjartir nótt og fullu tungli, hversu vel við skynjuðum hversu feikileg breyting það var að komast í vegasamband að vetri til vestur yfir fjallgarðinn. Það breyttist ansi margt í Þistilfirði við þennan góða Hálsaveg því áður var aðeins fær siglingaleiðin til Raufarhafnar á veturna. Sumarið 1964 fór ég ótal ferðir yfir Hálsa til að salta síld á Raufarhöfn.Ég man eftir mjög langri og strangri heimferð frá Garði fyrir páskana 1960. Þá fór Ásmundurá Brekknakoti með okkur krakkana að austan Dúu, Þórarinn í Laxárdal og undirritaða á hesti og sleða á móti pabba sem kom í Flögu með hest og sleða og sótti okkur þangað.Í Flögu fengum við veislu, meðal annars nýbakað gerbrauð, en kenfélagið hafði haldið gerdeigsnámskeið og öll heimili ilmuðu þaðan í frá af gerdeigsbakstri .Það var svo gaman að koma í Flögu. Við dreifðum okkur á bæði heimilin í kaffi. Í Garði þennan vetur vorum við 14. krakkarnir í skólanum og mjög líflegt.Við dönsuðum eftir danslögunum og sömdum leikrit og lékum. Fórum gangandi á bæina í kring um helgar. Fórum í söngtíma til Árna Kristjánssonar upp í Hagaland og sungum þar Fjárlögin og skólaljóðin af hjartans list. Við lékum okkur úti í hvaða veðri sem var. Kristrún ljósmóðir okkar flestra, enda aldrei kölluð annað en Kristrún ljósa sat og prjónaði og hálfblístraði lagstúf allan daginn þess á milli sem hún svaraði hinum ýmsu spurningum og ræddi málin.
Jólafastan hófst í dag og langt er um liðið síðan bændur fóru í kaupstað með hest og sleða úr Þistilfirði. Nú þarf ekki að sjóða ríflega í hádegismatinn á Gunnarsstöðum eins og móðir mín gerði því þá voru vestbæingar- og innbæingar á leið í kaupstað og komu við í báðum leiðum.Þung æki voru á sleðunum á heimleið svo sem; mjölsekkir, steinolíutunnur, molasykur og rúsínukassar, kaffi og alls konar kramvara og metravara.
Tæknin hefur fært okkur glænýjan veg, enn og aftur til hamingju með Hófaskarðsleið.
Kristín Sigfúsdóttir frá Gunnarsstöðum