Íbúar

Svalbarðshreppur

Smá minning úr Dal sem tengist foreldrum mínum og góðvinum þeirra Sigurbjörgu og Þorfinni á Þórshöfn: Það er sunnudagur í nóvember og komnir góðir gestir.

Minningarbrot frá Garðari Eggertssyni

Smá minning úr Dal sem tengist foreldrum mínum og góðvinum þeirra Sigurbjörgu og Þorfinni á Þórshöfn:

Það er sunnudagur í nóvember og komnir góðir gestir. Þorfinnur og Sissa birtast síðdegis. Alltaf gaman að fá þau í heimsókn og mikill spenningur að fylgjast með bílnum koma heimreiðina.

Þau eiga nefnilega svo margar og fallegar stelpur  að hvolpavitið fær fiðring.  Smá vonbrigði að i þetta sinn eru þau ein en ég vonaði allan tímann sem þau voru að keyra frá græna hliðinu að allavega Huldís væri með þeim. Mamma býður þeim í eldhúsið þar sem hún er að setja hangikjöt í pott.     Pabbi er í húsunum að gefa en birtist fyrr en varir. Kemur inn í eldhús í hversdagsfötunum og heilsar. Mamma finnur að því að hann skipti ekki um föt áður en hann kemur að heilsa uppá gestina en Þorfinnur er fljótur að hugsa  og segir ''Eggert kemur alltaf til dyranna eins og hann er klæddur. Hann þarf aldrei að draga fjöður yfir neitt''

Pabbi lætur segjast og fer í óvanalega fínt  til að geðjast Elínu sinni. Hann er fljótur að , enda mamma að sjálfsögðu búin að taka þau til handa honum.

Hangikjöt er snætt og dásamað og einhver eftirréttur er, eins og vanalega , líklega rabbabarafætur og sveskjur úr niðursuðukrukku. Síðan ber mamma fram kaffi og súkkulaði.

Það er spjallað fram á vökuna og ég get ekki slitið mig frá fullorðna fólkinu. Þessir gestir eru svo eðlis-skemmtilegir og fróðir að kynslóðabil hverfur.

Alltaf er skrifað í gestabók í Dal.  Þorfinni er margt til lista lagt og meðal annars er hann hagmæltur. Hann skrifar í gestabókina ''

'' Eggert í sín fínni föt

fór með ofsa hraði.

Svo gaf Elín öllum kjöt

og á eftir súkkulaði''

Góðir vinir kveðja og halda til Þórshafnar en það mun ekki líða langt á milli heimsókna, vináttan er traust.

 

Að Sigurbjörgu genginni eru þessi tvenn heiðurshjón aftur samankomin í sælli veröld. Hvort þau fái þar hangikjöt má Guð vita en margt geta þau rifjað upp og spjallað.

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf