Íbúar

Svalbarðshreppur

Eyrarbakkaferðin 1968. Þetta ár var fimbulvetur, áfrerar miklir um og fyrir áramót, snjóalög og kuldar eftir það langt fram í maí og líklega það

Eyrarbakkaferðin 1968.

Eyrarbakkaferðin 1968.



Þetta ár var fimbulvetur, áfrerar miklir um og fyrir áramót, snjóalög og kuldar eftir það langt fram í maí og líklega það sem verst var einu sinni skörp hláka seint í febrúar sem hleypti öllu í svell. Þegar túnin loks komu undan gaddinum grænkaði nálega hvergi teigur hér um sveitir. Aðeins nýræktir sem sáð var í sumarið áður og ekki einu sinni þær ef um endurvinnslu var að ræða.    Að vonum funduðu bændur og báru saman ráð sín og var fyrst hugsað til heykaupa hvar sem fengist falt hey. En fleira var gert. Hvar sem engi var að finna var það notað. Það mun hafa verið í júlíbyrjun sem ég var út á Eldjárnstöðum að girða með Sigfúsi Aðalbergi,  þann hluta af túni eyðibýlisins sem véltækur mátti heita, já og dreifa áburði á það sem gaddavírinn verndaði. Þá var það sem til okkar kom Sigtryggur á Svalbarði þeirra erinda að bjóða mér í engjaheyskap suður í Flóa. Hann var þá nýkominn þaðan og sagði allt vera til staðar, gras og góða fyrirgreiðslu ef við vildum bara þiggja, ekki væri frá neinum tekið. Mörg ár síðan grasbýlin við Eyrarbakka hættu að nýta nema brot af engjunum. Ég sagði óðara já og Sigtryggi tókst að fá Vigfús og Maríu á Syðra-Álandi með í ævintýrið.
Ekki hef ég hjá mér hvað liðu margir dagar frá þessari ákvörðun þar til lagt var af stað.   En með okkur suður tókum við þrjár dráttarvélar, eina þeirra með ámoksturstækjum og heykvísl, tvær sláttuvélar, eina tætlu og eina hjólmúgavél. Þetta járnaverk komst naumlega fyrir á vöruflutningabílunum tveimur sem K.N.Þ. hélt úti og ökumenn voru þeir Dúddi og Gulli.   En við fjögur ferðuðust á Svalbarðsjeppanum, af stað undir kvöld , ókum Uxahryggi og náðum morgunverðarborði í hótel Valhöll á Þingvöllum.(Maríu ógnaði alveg verðið á þeirri hressingu)  Á sólríkum  degi  bönkuðum við uppá hjá Vigfúsi oddvita og systur hans Vigfússínu og inn á þeirra heimili vorum við oftsinnis t.d. María alveg á meðan hún var veik af hettusótt.
Til að komast í slægjulöndin var ekinn sæmilegur vegur vestur úr þorpinu og spöl upp með Ölfusá.Við affallið á stórum Flóaáveituskurði settum við okkur niður með lítinn tjaldvagn sem íveruhús +eitt tjald. Í upphafi var gott veður en þurrkleysa þegar við fórum að slá en svo herti á sunnanáttinni með stórrigningum svo ört þrengdist um í enginu hvar gerandi var að fella grasið. Auðvitað var uppskera mest í lægðunum, sem urðu svo blautar að tilgangslaust var að að slá, yrði ekki gerandi að ná slægjunni upp á þurrkvöll.  Að kvöldi eins rigningardags heimsóttum við Sigtryggur vinafólk hans  Vernharð og Gyðu í Holti, komum þá líka inn á heimili Sigurgríms. Það var í stofunni þar þegar sunnan rigningin fossaði á stóra glugga sem Vernharður sagði: “ég held það sé komin ekta rosatíð, er ekki best fyrir ykkur að geyma vélarnar og engið þangað til kemur norðanátt? Skreppa heim og nota veðrið þar“. (fréttir voru af sólskini fyrir norðan) Sigtryggur svaraði þessu: “við höfum bara ekki að miklu að hverfa“ , svo hygg ég hann hafi  hugsað það sama og ég,  hvernig ætli gangi að fá Vigga í næsta túr.
Þetta voru nú ekki einu húsin sem við komum inní. Einhvern fyrsta daginn fékk Sigtryggur boð um að Stefanía frænka hans óski eftir því að hann finni hana á tilteknum tíma í ákveðnu húsi í Hveragerði. Sigtryggur var undrandi á, datt engin önnur Stefanía í hug en föðursystir okkar og bauð mér að fara með svo og Syðra-Álandshjónum. Þennan dag var sem oftar búið að rigna en skein raunar upp á meðan við vorum í Hveragerði. Umrædd kona var svo allt önnur en við hugðum.  Stefanía Guðmunsdóttir frá Syðra Lóni. Hún var og hennar maður í húsi vinafólks, annars dvalargestur á Heilsuhælinu. Eiginmaðurinn, Reynir, sprækur karl og hafði mest orðið við kaffiborðið sem við fengum, ræddi mest um nýafstaðnar forsetakosningar. Frúin í húsinu var ung og falleg og á bakaleiðinni var Viggi búinn að finna það út að þetta væri eitthvað skrýtin vinátta. Kerlingargreyið frá Syðra-Lóni væri höfð í Hveragerði á fölskum forsendum. Maja þóttist alveg hneyksluð á  hvernig hann hugsaði.
Þennan ökutúr lengdi svo Sigtryggur með því að fara austur í Brúnastaði og banka uppá hjá alþingismanninum Ágúst Þorvaldssyni, þar sátum við lengi í stofu og meðal annars talaði Ágúst um Langnesinginn Sæmund sem hafði verið honum samskipa til sjós. En minnistæðast var sumum okkar kvöldmaturinn sem Brúnastaðahjón fengu okkur til að þiggja. Rétturinn var söltuð grásleppa. Mér fannst hún ágæt og góð í maga eftir marga kaffitíma. En Viggi var tortrygginn og tók lítið í sleppuna og Sigtryggur sat á móti honum og gerði þau mistök að fara að fylgjast með svo hann gat lítið borðað sjálfur, hafði hugann við að verjast hlátri.      
Og  víðar lentum við í  veislur. Eitt sinnið er Sigtryggur kom úr búðarferð á Selfoss, það var ívið fljótlegra frá tjadbúðum okkar að aka upp með ánni í gegnum hlaðið á Kaldaðarnesi og inn á aðalveginn hjá Sandvík sem hann var stoppaður af fólki í Stóru-Sandvík og gefinn nýveiddur lax og líka komið til hans skilaboðum frá Rögnu og Pétri í Kjarri.  Skilaboðin voru að þau bjóði engjafólkinu í kvöldmat  1.ágúst og þá til að við getum horft á sjónvarpið þegar sýnt verður frá embættistöku  Kristjáns Eldjárns. Að sjálfsögðu mættum við á nefndum tíma og sátum fína veislu með silfur borðbúnaði og þjónustustúlku sem hneigði sig oft en sagði aldrei orð.  Viggi sá það alveg út að stelpan sú væri ekta þræll. En Maja og e.t.v. við öll vorum hrifin af Rögnu Sigurðardóttur og höfðum líka gaman af að spjalla við iðjuhöldinn Pétur, sem sagði okkur ekkert um málningaframleiðslu en hafði líka reynslu af búskap og það á Þórustöðum. Kjarr er smábýli sem hann reisti þegar hann seldi Þórustaði.  Það sem ég man að Pétur sagði um reynslu sína af kali, var að eitt vorið hafi allt hans tún hvítnað upp þegar það átti að grænka og sagði hann snöggt frost hafa valdið svona miklu rótarsliti.  Ég held hann hafi séð vantrúarsvip á okkur og skrapp sem oftar í annað herbergi. Viggi sagði líka á heimleiðinni að þetta sé leiðilegur maður, fari með jöfnu millibili til að snafsa sjálfan sig en bjóði ekki öðrum dropa.
Vigfúsína á Bakkanum og fleiri sögðu okkur að það kæmi þurrkur um verslunnarmannahelgina og það rættist. Í.þ.m. tvo daga var allgóður þurrkur. Þá var unnið að venjulegum heyskap með þeirri tækni sem þótti góð þá . Með Kvernelands-kvíslinni ýtt saman í lanir þar sem orðið var vel  vatnslaust.  Seinnitímaverk svo að koma heyinu í gegnum heybindivél. Við vorum ekki búin að tryggja okkur bindivél þegar kom kerling austan úr Flóanum og bauð okkur vél sem Sigtryggur þáði . Konan sú var ógurlega mælsk og vildi endilega fá okkur til að þiggja hey af sér,“það sé vísu all mikið hrakið,sé samt ágætt í sauðfé og hross“ það var ekki tekið mikið undir tilboðið og María okkar sagði að við mættum heppin teljast ef þessi vélarleiga hefni sín ekki. Svipurinn á eigandanum sé ekki fallegur.
Fleiri komu til okkar með boð. Fréttaritari sjónvarpsins á Selfossi kom og fylgdist með okkur um  stund er við vorum að koma heyi í gegnum bindivélina og í leiðinni kom maðurinn með skilaboð frá Runólfi í Ölversholti um að hann vilji gefa okkur hey, eitt til tvö bílhlöss. Heyið sé fyrnt og í hlöðu en við verðum að binda það sjálf. Líklega var það ég sem átti sökina á að við þáðum þessa gjöf. En hún varð nú ekki til að skipta sköpum um hvað margt fé var hægt að setja á vetur. Best að rifja upp áfram. Þegar búið var að binda engjaheyið (það sem þurrkað var) var með kranabíl vélin flutt austur í Ölversholt, það var um miðjan dag og sólskin en skúralegt. Runólfur vísaði okkur á heyið sem var í bragga  austan við bæjarhólinn en því miður gætu bændur ekki lánað dráttarvél núna, þær voru allar í flekkjunum ,“en þeir í Læk eða þá Hrygg hlytu að geta lánað vél). Sigtryggur ók mér austur á fyrsta bæinn og ég betlaði. Fékk vél með loforði um að skila henni eftir tvo tíma eða svo. En líklega í hálfa klukkustund börðust við þremenningarnir við að rífa þetta myglaða gamla hey út úr bragganum en þá kom drengur frá Læk til að sækja vélina,“skúrirnar eru alveg að koma, vélin þarf að koma í raksturinn“ þá var Sigtryggur snöggur að aftengja og þakka fyrir lánið. Þessi  120 búnt sem komin voru í bönd urðum við svo að gera ferð eftir seinna . Þá stóð miklu betur á og yngri bóndinn, Kjartan lánaði okkur Farmal-vél til að lyfta böggunum og leiddi okkur að kaffiborði. Húsfreyjan var norsk og þar borðaði ég óvanalegt álegg á hveitibrauði sem var nýtt slátur. Líklega var það sama dag og banatilræðið sem við gerðum Vigga okkar(að hafa hann inni í bragganum)sem þeir Björn Sigfússon og annar heimamaður komu á sínum vörubílum  og tóku vélarnar og ofurlítið af heyi yfir og inn á milli. Og undir nótt lögðu þeir heim og með þeim hjónin á Syðra-Álandi. Árni í Holti kom í Áland daginn sem þau komu heim og sagði að þau hafi verið hörmulega þreytuleg.
Við Sigtryggur unnum að frágangi á heyinu, raða böggunum í mjóann galta og kýfa með lausu. Breiddum svo loðnunót yfir , frekar en ekkert. Þessa nót fengum við að hirða á Bakkanum. Þegar við lukum frágangnum rigndi alveg ofsalega,en við ekki vatnsfataklæddir og ókum hundblautir til Reykjavíkur réttara sagt  í Kópavog, heim til Jóns Erlings og Sigrúnar.Þar fórum við í bað og  stoppuðum vel .  Erindi til Reykjavíkur var að hluta landbúnaðarsýning í Laugardalnum . Á hana fórum við næsta dag og Sigtryggur svo norður en ég tók að mér að vera nærri engjunum þegar flutningur fengist á baggana.  Á meðan við vorum enn að slá varð ég málkunnugur fólkinu í Kaldaðarnesi,þar ókum við oft í gegnum hlaðið eins og fyrr segir. Fyrst var það unglingsstúlka, ljóshærð og brosmild sem ég hitti og fékk strax skýringu á hvað lítið væri byrjað að heyja á þeim bæ,“ pabbi er með í bakinu, ofgerði sér við að hlaða upp veggina að pípuhliðinu“  Seinna fékk ég að kynnast því hvaða skráveifu   Kaldaðarnesbóndinn hafði fengið  , Ölfusá hafði flætt yfir túnin um veturinn og eyðilagt megnið af girðingunum og skemmt víða með sandhaugum.    - Þegar kæmi að því að hlaða heybíl varð náttúrulega að hafa moksturtækjavél og kom ég mér  vel við Eyþór bónda , held að ég hafi boðist til að grípa í verk hjá honum í staðinn. Allavega gekk vel að lynda við fjölskylduna í Kaldaðarnesi og ég var þar heimilismaður í rúma viku og þá var flesta daga þurrkur svo nokkuð vel gekk að heyja og bílar komu til að sækja engjaheyið.  Þ.á.m. Einar Friðbjörnsson , mágur minn.  Hann kom snemma á sunnudagsmorgni og þá var ég ennþá í tjaldbúðunum og hjá mér gestir, Þórarinn bróðir og Ásvaldur Marísson , líka Hanna Kjartansdóttir og vorum við búin að vera á balli austur á Hvoli  þar sem Haukur Mortens lék og söng. Ég man hvað það var snautlegt að láta Einar taka taka sig í bælinu.  Sennilega átti ég von á honum þennan dag, annars var erfitt með fjarskipti.  Í þá tíð var enginn í símasambandi út á túni. En einhverjum dögum seinna komu Kópaskersbílarnir (ég man allavega eftir Dúdda) og tóku það síðasta. Því miður hef ég ekki heimildir og er búinn að gleyma hvað bílhlössin voru mörg.
Það er reyndar fleira í þessari sögu sem áhöld eru um hvort rétt sé sagt frá. Ég ætla ekkert að biðjast fyrirgefningar á því, segi bara „ég man þetta svona“.
Árbók Þingeyinga  1992  geymir frásögn Sigtryggs Þorlákssonar af engjaferðinni  löngu.

Kveðja til allra sem nenna að lesa þetta.   Stefán Eggertsson.                                                




Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf